18 (1) 2002 bls. 21 - 26
© Höfundar og STÍL


THORN;órhallur Eyþórsson

Hvaða mál talaði Egill Skalla-Grímsson á Englandi?


Þórhallur Eyþórsson,
kennir málvísindi
við Háskólann í Manchester á Englandi


Vínheiði og Jórvík

Egill Skalla-Grímsson var víðförull og fór meðal annars tvisvar sinnum til Englands, að því er hermt er í sögu hans (ÍF 2). Í fyrra skiptið (50.-55. kap.) gekk hann til liðs við Aðalstein Englandskonung og vann fyrir hann frækinn sigur á Ólafi rauða, konungi Skota, í orrustunni á Vínheiði. Á ensku er orrustan kennd við Brunanburgh og var hún háð árið 937 e. Kr. Frásögn Egils sögu af þessum atburðum er merkileg en þó tæpast jafn-eftirminnileg og hin magnaða lýsing á síðari Englandsför bóndans á Borg (59. kap. o. áfr.). Í þeirri för brýtur Egill skip sitt í spón við ána Humru og er á augabragði kominn á vald erkióvina sinna, Eiríks konungs blóðaxar og Gunnhildar drottningar hinnar göldróttu, sem þá sátu í Jórvík. Þangað höfðu þessi illa þokkuðu hjón hrakist eftir að Egill rak þau frá Noregi með fjölkynngi sinni og rúnum. Lyktir verða þær að íslenska skáldið þiggur hjálma klett af Eiríki konungi og geldur við Höfuðlausn.

Í Jórvíkurförinni hittir Egill fyrir norræna menn, ekki aðeins þau Eirík blóðöx og Gunnhildi, heldur líka hirðmenn þeirra. Þar á meðal er fornvinur hans, Arinbjörn hersir, sem reynist Agli betri en enginn í viðureigninni við þau konungshjón. Þetta fólk talaði vitanlega sama mál og Egill: norrænu, danska tungu, forníslensku eða hvaða orð sem menn kjósa að nota; hér verður látið gott heita að kalla það íslensku. Þess er einnig getið að þegar Egill kom að landi við Humru hafi hann frétt hvílíkir vágestir sátu nú í Jórvík en ósagt er látið hverjir tíðindamenn hans voru eða hvort þeir voru norrænir eða enskir. Ekki er heldur greint frá þjóðerni þeirra sem hann spurði til vegar á leiðinni á fund Eiríks konungs í Jórvík. Hvað sem öðru líður er fullvíst að á þeim tíma var fjöldi norrænna manna á Norðymbralandi. Því hefur verið hægðarleikur að bjarga sér á íslensku þar um slóðir og að sama skapi ónauðsynlegt að kunna mikið í enskri tungu.

Enskur konungur og íslenskur skáldbóndi

Í frásögninni af fyrri Englandsför Egils er aftur á móti sagt frá samskiptum söguhetjunnar við enska menn. Einkum og sérílagi eru þar rakin samtöl Egils við sjálfan konung þeirra, Aðalstein hinn sigursæla, sem síðar var einnig nefndur hinn trúfasti vegna þess hversu vel hann var kristinn. Þeir bræður, Þórólfur og Egill, koma á fund konungs og bjóða honum að gerast landvarnarmenn hans. Aðalsteinn tekur þeim vel en fer fram á þeir láti prímsignast. Þeir bræður telja það sjálfsagt mál. Prímsigning var fólgin í því að krossmark var gert yfir heiðingjum svo að þeir mættu hafa samneyti við kristna menn. Aðrar skuldbindingar fylgdu þessari athöfn ekki.

Í orrustunni á Vínheiði eru Þórólfur og Egill höfðingjar yfir her Engla. Aðalsteinn konungur fer með sigur af hólmi en á meðal þeirra sem falla af liðsmönnum hans er Þórólfur Skalla-Grímsson. Eftir orrustuna fara yggldar brúnir Egils í samt lag þar sem hann situr í öndvegi í höll Aðalsteins og eygir bróðurbæturnar á sverðsoddi konungs. Til fróðleiks má skjóta því hér inn að það var forn siður á meðal germanskra þjóða að rétta gjöf á sverðs- eða spjótsoddi og taka við henni á sama hátt og er annað frægt dæmi um það að finna í fornháþýska kvæðabrotinu um Hildibrand, sem Jón Helgason (1959) hefur snarað á íslensku af mikilli íþrótt. Egill þakkar konungi gjöfina í bundnu máli og tekur gleði sína að nýju, eins og marka má af því að hann þiggur í staupinu og fer að spjalla við hina veislugestina. Þótt ekki sé nefnt á hvaða máli þau orðaskipti fóru fram er ekki að sjá að viðstaddir hafi átt í erfiðleikum með að skilja hver annan. Enn síður virðist Aðalsteini hafa orðið skotaskuld úr því að nema vísuna þá arna eða annan kveðskap sem íslenski skáldbóndinn fór með. Má í því sambandi minna á að Egill orti heila drápu um hinn tiginborna enska vin sinn, vitaskuld á íslensku.

Sérstaklega er getið um einkasamtöl þeirra Egils og Aðalsteins við tvö tækifæri. Í fyrra skiptið ræðast þeir við þegar konungur fær Agli í hendur silfrið fræga til að deila með Skalla-Grími og öðrum Mýramönnum (þótt Egill sæi sér raunar ekki fært að verða við þeirri ósk - en það er önnur saga). Í síðara skiptið trúir Egill konungi fyrir því að hann ætli á brott í því skyni að vita hvað títt sé um Ásgerði, ekkju Þórólfs bróður síns. Rennur þá upp fyrir konungi að Egill muni ekki staðfestast á Englandi. Þeir kveðjast engu að síður með mikilli vináttu og lýkur þar samskiptum þeirra.

Enska eða íslenska?

Hvort einhver flugufótur er fyrir þessum frásögnum skiptir ekki ýkja miklu máli hér. Aðalatriðið er að í sögunni er gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að á miðri 10. öld hafi Íslendingur og Englendingur rabbað saman vandræðalaust. Ekki er getið um neina túlka sem hafi verið viðstaddir samtöl þeirra kumpána. Þá vaknar spurningin: Hvaða mál töluðu þeir Egill og Aðalsteinn konungur við þessi tækifæri?

Ræddu þeir báðir saman á fornensku, sem var móðurmál Aðalsteins? Það felur í sér að Egill hafi orðið nokkurn veginn altalandi á þá tungu á þeim stutta tíma sem hann dvaldist á Englandi. Eins og vikið verður að á eftir voru enska og íslenska miklu líkari á þeim tíma þegar Egils saga á að gerast en síðar varð. Margt bar þó í milli í hljóð- og beygingakerfi, setningagerð og orðaforða. Þrátt fyrir ótvíræðar yfirburðagáfur Egils Skalla-Grímssonar (að minnsta kosti á sumum sviðum) verður því að teljast ólíklegt að hann hefði lært fornensku svo fljótt að hann gæti haldið uppi samræðum við konung á henni.

Voru samtöl þeirra þá á íslensku (norrænu, danskri tungu) eins og ætla mætti af sögunni? Svarið við því er: varla. Að vísu mun Aðalsteinn hafa vingast við Harald hárfagra og haft um sig sveit norrænna manna enda voru þeir fjölmennir á sumum svæðum á Bretlandseyjum um þessar mundir, í kjölfar innrása víkinga sem hófust um árið 790. Með því að norræna hafði hlotið þar talsverða útbreiðslu er hugsanlegt að Aðalsteinn hafi kunnað eitthvað fyrir sér í því máli. En engar heimildir eru um það.

Þriðji kosturinn er að hvor um sig hafi spjallað við hinn á sínu móðurmáli, Egill á íslensku og Aðalsteinn á fornensku. Það felur í sér að sá sem talaði annað málið hafi getað skilið hitt án þess að hafa beinlínis lært það. Hugsanlega hefur þá annar hvor eða báðir komið til móts við hinn með því að tala hægt og skýrt þegar viðmælandinn skildi ekki vel - og ef til vill notað orð sem hann kunni úr hinu málinu á stöku stað (Aðalsteinn hefði frekar verið í stakk búinn til þess þar sem kynni hans af norrænum mönnum voru vætnanlega meiri en kynni Egils af enskum). Þessi tilgáta virðist sennilegri en hinar og hér á eftir verður reynt að tína til ýmis atriði henni til stuðnings.

Ein tunga

Af fornum heimildum má ráða að glöggum mönnum voru snemma ljós líkindin með íslensku og ensku, svo og munurinn á þeim. Einn nákvæmasti vísindamaður sem Ísland hefur alið var upp á sitt besta á síðari hluta 12. aldar og skrifaði bókarkorn um íslenska hljóðkerfið sem nefnt er Fyrsta málfræðiritgerðin. Í þessu frábæra riti kemur fram að höfundur gerir annars vegar skýran greinarmun á íslensku og málum eins og grísku, latínu og hebresku. Þegar hins vegar er vikið að enskum mönnum og máli þeirra er umfjöllunin svona (sbr. Hreinn Benediktsson 1972: 208):

„Nú eftir þeirra dæmum, alls vér erum einnar tungu þó að greinst hafi mjög önnur tveggja eða nokkuð báðar …“

Þessi athugasemd fyrsta málfræðingsins er til sannindamerkis um að hann áttaði sig á því að munurinn á íslensku og ensku var af öðrum toga en munurinn á íslensku og til dæmis latínu. Íslenska og enska voru eitt sinn nokkurn veginn „eins“ en þær hafa breyst og eru nú ólíkari hvor annarri en þær voru áður. Íslenska og latína eru sitthvort tungumálið en íslenska og enska tvær mállýskur sama tungumáls (sbr. Gunnar Harðarson 1999:23-24).

Annar vitnisburður um náið samband norrænu og fornensku er þessi fræga klausa í Gunnlaugs sögu ormstungu sem er að finna í frásögn af fundi söguhetjunnar og Aðalráðs konungs Játgeirssonar (sbr. ÍF 3:70):

„Ein var þá tunga á Englandi sem í Noregi og í Danmörku. En þá skiptust tungur í Englandi er Vilhjálmur bastarður vann England; gekk þaðan af í Englandi valska er hann var þaðan ættaður.“

Deila má um sannleiksgildi frásagnarinnar af fundi Gunnlaugs og konungs enda hafa fræðimenn verið iðnir við kolann þann (sbr. Magnús Fjalldal 1993). Hvað sem öðru líður má túlka ofangreinda klausu svo að þar komi fram hugmynd um að áður fyrr hafi „sama mál“ verið talað á Englandi og á Norðurlöndum en eftir að Normannar réðust inn í England undir forystu Vilhjálms bastarðar árið 1066 hafi annað mál, valska (þ.e. franska), rutt sér þar til rúms (sbr. Gunnar Harðarson 1999:19).

Vitaskuld verður að taka þessum klausum sem hér hafa verið tilfærðar með hæfilegum fyrirvara. Sú tilgáta að þær séu til marks um að fornmenn hafi gert sér grein fyrir líkindum íslensku og ensku styrkist þó í ljósi annarra heimilda um gagnkvæman skilning manna af ýmsum germönsku þjóðflokkum. Um þessi efni hefur William G. Moulton skrifað fróðlega grein sem hér verður stuðst við (Moulton 1988).

Í fornenska kvæðinu Maldon er sagt frá viðureign sem átti sér stað árið 991 milli landvarnarsveitar Engilsaxa og innrásarliðs víkinga. Þessar andstæðu fylkingar hreyta ókvæðisorðum hvor að annarri. Ósennilegt er að Engilsaxarnir hafi blótað á norrænu eða víkingarnir á ensku. Líklegra virðist að þeir hafi látið dæluna ganga hvorir á sínu móðurmáli. Ljóst er að hvorirtveggju tóku til sín svívirðingar andstæðinganna þannig að menn virðast hafa skilið skensið þótt það væri á annarri tungu.

Í Danmerkursögu Saxa málspaka er að finna frásögn af atburði sem átti sér stað árið 1170. Ensk skrifarablók þvældist með dönskum soldátum um Eystrasaltslönd. Eitt sinn er þeir höfðu beðið lægri hlut í viðureign við ótíndan sjóræningjalýð af þjóð Eista stappaði enski skrifarinn stálinu í dönsku hetjurnar á sinni „útlendu tungu“. Danirnir hljóta að hafa botnað eitthvað í ræðu Tjallans því að þeir létu huggast og hættu að vola.

Annar lærdómsmaður, Páll djákni, sem var uppi á ofanverðri 8. öld og dvaldist um tíma við hirð Karlamagnúsar, skrifaði rit um sögu þjóðar sinnar, Langabarða; það var germanskur þjóðflokkur sem var svo skynugur að nema land sólarmegin við Alpafjöll. Þar segir að Langbarðar, Bæverjar, Saxar og aðrir slíkir tali „sama málið“. Átt mun við að mállýskur þessara þjóðflokka séu í raun mismunandi afbrigði af fornháþýsku og því geti þeir sem tala þær skilið hver annan.

Loks má nefna að Gotar, sem að líkindum voru upprunnir í Suður-Svíþjóð (sbr. örnefni eins og Gotland og Gautaborg), lögðust skömmu fyrir Krists burð í gríðarleg ferðalög suður á bóginn. Létu sumir þeirra ekki staðar numið fyrr en þeir voru komnir alla leið að Svartahafi. Um miðja 15. öld var feneyskur kaupmaður, Barbaro að nafni, á ferð um Krímskaga og rakst þar á menn sem enn voru mæltir á gotnesku (svokallaða Krím-gotnesku, sem tórði á þessum slóðum að minnsta kosti fram til ársins 1562, langlífast austurgermanskra mála). Feneyingurinn segir frá því að þýskur þjónn sinn hafi haldið uppi samræðum við Gotana, á svipaðan hátt og á Ítalíu myndi maður frá Fríúl-héraði geta talað við Flórensbúa.

Af þessum heimildum má álykta að til forna hafi kunnátta í einu germönsku máli nægt til að menn gátu gert sig skiljanlega hvar sem var á germönsku málsvæði. Einstök forngermönsk mál voru því að ýmsu leyti ekki ólíkari hvert öðru en mismunandi mállýskur sama tungumáls.

Hins vegar kemur babb í bátinn þegar valska, latína, gríska og hebreska eru nefndar til sögunnar. Sama á við um um írsku eins og meðal annars kemur fram í Laxdælu (sbr. Helgi Guðmundsson 1997:36-39). Írska er framandi tungumál, óskiljanlegt norrænum mönnum sem ekki hafa lært það. Einn af þeim fáu sem getið er um að það hafi gert var Ólafur pá, enda hæg heimatökin þar sem hann nam írskuna af vörum Melkorku, móður sinnar.

Fornenskt faðirvor

Svo að þessi umræða verði ekki of óhlutbundin er tilvalið að birta hér örlítið sýnishorn af fornenskum texta með íslenskri þýðingu undir hverri línu. Þar með verða hin miklu líkindi þessara tveggja mála og hinn smávægilegi munur á þeim ef til vill ögn áþreifanlegri. Textinn að neðan, fornensk þýðing á faðirvorinu, er frá 9. öld.

Fæder úre, þú þe eart on heofonum,
faðir vor þú sem ert á himnum

sí þín nama gehálgod, tóbecume þín ríce,
sé þitt nafn helgað til komi þitt ríki

geweorþe þín willa on eorþan swá swá on heofonum.
verði    þinn vilji    á jörðu svo svo á himnum

Úrne gedæghwámlícan hláf syle ús tó dæg
vorn daglegan     hleif sel oss í dag

and forgyf ús úre gyltas swá swá wé forgyfaþ úrum gyltendum
og fyrirgef oss vorar skuldir svo svo vér fyrirgefum vorum skuldunautum

and ne gelæd þú ús on costunge ac álýs ús of ýfele.
og né leið þú oss í freistniheldur leys oss af illu

Flest eru orðin mjög áþekk samsvarandi orðum í íslensku. Eitt og annað er þó frábrugðið. Orðið gedæghwámlícan er þannig nokkuð framandlegt við fyrstu sýn en þar eð það stendur með hláf, sem er sama orðið og íslenska hleifur, ætti merking orðasambandsins (‘daglegt brauð’) fljótlega að renna upp fyrir þeim sem heyrir það. Orðmyndin syle er boðháttur sagnarinnar sellan sem samsvarar íslensku sögninni selja (einnig til í merkingunni ‘gefa’). Lýsingarhátturinn gehálgod er dreginn af sömu sögn og íslenska sögnin helga, helgast þótt orðmyndunin sé önnur. Einu orðin í þessum texta sem ætla má að séu Íslendingi óskiljanleg með öllu, nema hann hafi sérstaklega lagt sig eftir að læra fornensku, eru gyltas, gyltendum og costunge. Þó ætti að vera hægt að átta sig á merkingu þeirra af samhenginu.

Vera kann að Aðalsteinn konungur hafi farið með þessa bæn á undan orustunni á Vínheiði þótt Egluhöfundur (var það ekki Snorri Sturluson?) þegi um það. Ólíklegt er hins vegar að sjálfur hafi Egill verið búinn að læra faðirvorið þótt hann hafi látið sér lynda prímsigninguna til málamynda. Tæpast hefði skáldið sem orti Sonatorrek gefið mikið fyrir þennan útlenda leirburð hvort eð er. Hitt er annað mál að ef íslenski víkingurinn hefði heyrt Aðalstein konung eða einhverja aðra kristna kveif þylja bænina á fornensku hefði það ekki átt að vefjast fyrir honum að skilja hana eftir orðanna hljóðan, enda þótt honum hefði ef til vill ekki verið innihaldið skapfellt.

Þæt mælede mín módor

Þótt Egill Skalla-Grímsson hefði tæplega verið uppnæmur fyrir guðsorði flutti hann sjálfur dýrt kveðnar vísur á Englandi og virðist þarlendum hafa fallið þær vel. Vafasamt má þó telja að enskur ljóðaunnandi hefði treyst sér til að þýða þann skáldskap fyrirvaralaust þrátt fyrir að málunum svipaði saman. Öðru gegnir um vísuna alkunnu sem Egill orti þegar hann var sjö vetra (sbr. ÍF 2:100-101):

Það mælti mín móðir
að mér skyldi kaupa
fley og fagrar árar,
fara á brott með víkingum,
standa upp í stafni,
stýra dýrum knerri,
halda svo til hafnar,
höggva mann og annan.

Þessi vísa er einfaldari að formi en annar kveðkapur sem Agli er eignaður en engu að síður frábærlega vel ort. Hér birtist víkingaandinn í hnotskurn, hvorki meira né minna. Nú er ekki loku fyrir það skotið að Egill hafi rifjað upp bernskubrek sín sjálfum sér og öðrum til gamans þegar hann stóð í stórræðum á enskri fold. Ef hagorður Engilsaxi hefði numið þessa auðskildu vísu hefði hann getað snarað henni nánast orðrétt á móðurmál sitt. Flest orðin eru sameiginlegur germanskur arfur en fley, víkingur og knörr koma fyrir sem norræn tökuorð í fornensku: flæge, wícing og cnear; það hefði því ekki reynst enskum mönnum torvelt að botna í þeim. Ég giska á að fornenska þýðingin hefði verið á þessa leið (og bið lesandann að taka viljann fyrir verkið):

Þæt mælede mín módor
þæt me scolde ceapian
flæge and fægra ára,
faran aweg wið wícingum,
standan úppe in stefnan,
stíeran deorne cnear,
faran swá tó hæfene,
héawan man and óðer.

Fyrir utan nokkur smáorð þarf aðeins að breyta einu orði til þess að merkingin komist til skila á allframbærilegri fornensku. Það er sögnin halda, sem er að vísu til í fornensku (healdan) en ekki í merkingunni ‘stefna’ eins og í íslensku. Hér er því notuð sögnin faran (fara) í staðinn og þar af leiðandi raskast stuðlasetningin á þessum eina stað í þýðingunni.

Stuðlar og höfuðstafir tíðkuðust sem kunnugt er einnig með germönskum frændum okkar til forna og því hefði glíman við formið naumast verið ljóðelskum Engilsaxa ofraun. Þegar norræn eddukvæði og dróttkvæði eru borin saman við hina fornháþýsku Hildibrandskviðu (sbr. Jón Helgason 1959) og hina fornensku Bjólfskviðu, sem Halldóra B. Björnsson (1983) færði í rammíslenskan búning, blasir við að germanskar þjóðir áttu sér eitt sinn sameiginlegt skáldskaparmál. Það kom hins vegar í hlut Íslendinga einna að varðveita hið hefðbundna ljóðform, sem lifði af hallæri og aðra óáran norður við ysta haf - og tókst meira að segja ekki að deyja alveg á sjálfri atómöld.

Meira líkt en ólíkt

Ekki skal gert lítið úr þeim atriðum sem greina norræn mál frá fornensku og öðrum vesturgermönskum málum. Þó má ekki missa sjónar á því að þrátt fyrir margvísleg sérkenni sem málfræðingar einblína á og gera mikið veður út af svipar forngermönskum málum í rauninni mjög saman. Ef til vill má orða það svo að vegna þess hversu mikil áhersla er jafnan lögð á það sem á milli ber falli sameiginleg einkenni málanna í skuggann. Einföld athugun á fornenskum texta eins og hér hefur verið gerð sýnir að munurinn á fornensku og íslensku er óverulegur. „Fornenska og íslenska eru náfrænkur, en líkjast þó meir hvor annarri en margar alsystur,“ segir Pétur Knútsson í formála sínum að þýðingu Halldóru B. Björnsson á Bjólfskviðu (1983:7) og hittir naglann á höfuðið. Þetta hefur lengi verið glöggskyggnum mönnum ljóst, eins og sjá má af ummælum fyrsta málfræðingsins og höfundar Gunnlaugs sögu. Þessi munur er (að breyttu breytanda) ekki mikið meiri en á milli norrænu meginlandsmálanna nú á dögum, norsku, dönsku og sænsku, eða norrænu eyjamálanna, íslensku og færeysku, eða þá svissneskra mállýskna. Aftur á móti má slá því föstu að munurinn er minni en á milli íslensku og dönsku eða lágþýsku og bæversku.

Sjálfur hef ég átt heima bæði í Norður- og Suður-Þýskalandi og hef því fyrir tilviljun nokkurn pata af mállýskum nyrst og syðst á þýsku málsvæði. Mér þykir sennilegt að bóndi frá Allgäu í Suður-Bæjaralandi ætti í mestu brösum með að spjalla við hafnarverkamann frá Kiel, norður í Slésvík-Holtsetalandi, ef hvor notaði sína mállýsku, sveitamaðurinn bæversku og eyrarkarlinn lágþýsku. Þeir myndu hins vegar skilja hvor annan ef þeir beittu fyrir sig háþýsku (Hochdeutsch). Annað er uppi á teningnum á meðal svokallaðra „þýskumælandi“ Svisslendinga, eins og Willam Moulton skýrir frá í áðurnefndri grein. Ef úrsmiður frá Zürich þarf að eiga samskipti við ostagerðarmann í Bern ræða þeir ógjarna saman á háþýsku heldur mælir hvor á sinni mállýsku. Koma þeir þá að vísu oft til móts við viðmælandann með því að draga úr sumum afbrigðilegustu mállýskusérkennunum og forðast orðfæri sem einskorðað er við aðra mállýskuna og ætla má að hinn þekki ekki. Sama er að segja um Norðmenn, Dani og Svía, sem tala jafnan hverjir við aðra á sínu máli. Það geta Íslendingar og Færeyingar líka gert ef þeir kæra sig um — þótt hinum síðarnefndu gangi víst betur að skilja okkur en öfugt.

Allt bendir til að þannig hafi aðstæður einnig verið á germönsku málsvæði til forna. Þess vegna gefur auga leið að þeir Egill Skalla-Grímsson og Aðalsteinn hinn sigursæli og trúfasti hefðu hæglega getað talað saman hvor á sínu móðurmáli, skáldbóndinn á íslensku og konungurinn á fornensku.

Heimildir

Þórhallur Eyþórsson, kennir málvísindi
við Háskólann í Manchester á Englandi

PDF-skrá. (46 KB).


Til baka í index

F O R S Í Ð A